Tónlist, minningaskrif og rautt vín getur verið lykill að langlífi

Tónlist, minningaskrif og rautt vín getur verið lykill að langlífi

Tónlist, minningaskrif og rautt vín getur verið lykill að langlífi

Dr. Henning Kirk, danskur læknir og sérfræðingur í öldrunarfræðum ræðir um áskoranir vinnumarkaðsins vegna hækkandi lifaldurs.

„Markmiðið er ekki að verða hundrað ára, heldur að lifa góðu og innihaldsríku lífi og stuðla sjálfur að sem mestum lífsgæðum á efri árum,“ segir dr. Henning Kirk, danskur læknir og sérfræðingur í öldrunarfræðum. Hann var í þriðja sinn í heimsókn á Íslandi seint í aprílmánuði 2016 og flutti fyrirlestur á málþingi Landssamtaka lífeyrissjóða um áskoranir vinnumarkaðarins vegna hækkandi lífaldurs. Hann ræddi málin við Veffluguna í fundarhléi á Grandhóteli.

Henning er 69 ára, kominn á eftirlaun en mjög langt frá því að vera sestur í steininn helga. Í fyrirlestrinum hvatti hann eldri borgara til að vera virka á allan hátt, hreyfa sig en ekki síður að örva heilastarfsemina markvisst og meðvitað til að halda heilbrigðri sál í hraustum líkama sem allra lengst.

Sjálfur er hann heilbrigðið og hressleikinn uppmálaður. Hann hjólar, hleypur, spriklar í leikfimi, les krefjandi bækur, skrifar, ræðir við fólk, hlustar á tónlist og drekkur rauðvín með kvöldmatnum á hverjum degi. Allt er þetta hluti af leiðbeiningum hans um lengra og innihaldsríkara líf, ekki síst virk menningarstarfsemi.

„Íslendingar eldast vel og verða gamlir. Það held ég megi þakka því að þeir hafa löngum hreyft sig og reynt á sig líkamlega, borðað fisk og síðast en ekki síst verið hluti af blómlegu menningarsamfélagi bókmennta, tónlistar og lista.“

Kynslóðabilið verði brúað í reynd

Danski öldrunarlæknirinn segir að svipuð viðhorf og fordómar ríki gagnvart eldri borgurum á vinnumarkaði alls staðar þar sem hann þekki til. Ísland sé þar tæplega nein undantekning. Í stað þess að líta á eldra fólk sem „byrði“ af einhverju tagi eigi að virkja það sem auðlind reynslu og þekkingar sem samfélagið hafi ríka þörf fyrir. Í Japan sé markvisst unnið að því færa þekkingu og reynslu milli kynslóða í atvinnulífinu með samspili yngri starfsmanna og þeirra eldri. Slíkt sé hollt fyrir atvinnureksturinn og gott fyrir fyrirtækin. Reynsla Japana sýni þetta og sanni.

Henning Kirk er mælir eindregið með því að eldra fólk brjóti heilann um alla skapaða hluti og haldi þannig frumum í kollinum sínum við efnið. Hann nefnir sem nærtækt dæmi að fólk eigi að vera duglegt við að rifja upp atvik og upplifun fyrr á ævinni og skrifa hjá sér, á blöð eða í tölvum. Þetta gerir hann sjálfur og gaf út bók í fyrra um endurminningar sínar frá því hann var sjö ára strákur í Danmörku.

Núna vinnur hann hörðum höndum að bók um þýska konu sem fluttist til Danmerkur árið 1946, beint úr hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar í heimalandinu, giftist Dana og bjó í Danaveldi til æviloka.

Sprengjuregnið í Hamborg rifjað upp

„Ég kynntist þessari konu og að því kom að hún trúði mér fyrir sögu sinni, sem hún hafði engum öðrum sagt, og heimilaði mér að skrifa til að gefa út á prenti. Hún ólst upp í Berlín en flutti til Hamborgar eftir að stríðið skall á og upplifði mikla skelfingu og hörmungar þegar bandamenn létu sprengjum rigna yfir borgina í loftárásum 1943. Sprengjuregnið kostaði 50 þúsund manns lífið og gerði 900 þúsund manns heimilislausa.

Þetta er verkefni sem hentar mér vel sem forvitnum og fróðleiksfúsum manni.
Ég fór til Berlínar og Hamborgar til að afla upplýsinga og ræða við fólk sem man þessa tíma. Þannig læt ég heilafrumurnar hafa fyrir hlutunum og þannig á það líka að vera!

Fólk þarf samt alls ekki að skrifa heilu bækurnar til að styrkja heilastarfsemina. Það getur í staðinn lesið bækur sem reyna á hugann og gera kröfur. Það á sömuleiðis að setjast frekar yfir kaffibolla með þeim sem eru annarrar skoðunar og ræða málin við þá frekar en tala aftur og aftur við þá sem eru sama sinnis og kinka kolli athugasemda- og átakalaust yfir málflutningi þeirra!“

Hjólum meira, ökum minna

Henning Kirk útilokar ekki að hann komi til Íslands árið 2047 til að flytja fyrirlestur um öldrun. Þá verður hann aldargamall, ef hann lifir svo lengi á annað borð. Hann bendir samt á að tölfræðilega aukist líkur á því ár frá ári að eitthvað gerist hjá sér sem setji strik í reikninginn, eðli máls samkvæmt. Hann geri hins vegar í því að lifa lífinu lifandi og innihaldsríku áfram, sem skipti langmestu máli.

Pabbi Hennings kom einu sinni til Íslands. Hann sigldi í hópi danskra kennaranema frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur með Gullfossi og var bullandi sjóveikur alla leiðina. Hann varð Íslandsvinur og sýndi íslenskum málefnum áhuga eftir það, ævina á enda.

Henning kom loftleiðis til Íslands í öll þrjú skiptin. Hann fór um Reykjavík núna á vordögum og hafði orð á að mjög margt hefði breyst frá því síðast, fyrir aldarfjórðungi. Borgin hefði stækkað ótrúlega mikið og honum þótti athyglisvert að sjá alls staðar gróðursæld og tré. Honum fannst lítil bæjarprýði af sumum nýlegum byggingum en staldraði mest við Íslendinga sjálfa. Þeir höfðu greinilega gildnað umtalsvert frá því hann sá þá síðast á heimavelli.

„Þið sitjið greinilega of mikið í bílum, gangið ekki nægilega mikið eða hjólið of sjaldan. Eldri borgarar ættu að fá sér hjól og nota þau. Það er fín hreyfing.“

Þeim skilaboðum er hér með komið á framfæri.

 

Skarpur heili, betra líf

- góð ráð úr smiðju Hennings Kirk

• Verum í góðu líkamlegu formi. Það örvar heilastarfsemi og eykur vellíðan.
• Þjálfum og styrkjum hæfileika og færni sem við viljum halda vel við.
• Varðveitum barnslega forvitni gagnvart umhverfinu.
• Brjótumst úr viðjum vanans!
o Hjólum og hlaupum ekki alltaf sömu leið heldur helst nýja og nýja í hvert sinn.
o Kynnumst fleirum, helst þeim sem hafa aðrar skoðanir eða viðhorf eða hafa uppruna og menningarlegan bakgrunn ólíkan okkur.
• Hlustum líka á aðra tónlist en þá sem við höldum upp á. Spilum og syngjum, til dæmis í kór.
• Vinnum með tungumál: lesum, skrifum, ræðum saman. Lærum jafnvel ný tungumál, það reynir á heilafrumurnar!
• Leysum krossgátur og suduko, spilum bridds.
• Notum tölvuna á ýmsa vegu: skrifum tölvupóst, leitum upplýsinga með gúggli og förum í tölvuleiki.
• Spáum í sögu þjóðar og mannkyns, samhengi samtíðar og fortíðar, tengjum við eigin ævisögu og upplifun.
• Skrifum minningarbrot, rifjum upp það sem á daga okkar hefur drifið og punktum hjá okkur.
• Verum jákvæð, bjartsýn og glaðlynd.
• Borðum fjölbreyttan mat og munum eftir D-vítamíninu að vetrarlagi.
• Eitt til tvö glös af rauðvíni með kvöldmatnum er hið besta mál. Látum sterka drykki hins vegar eiga sig.